Guðjón Samúelsson fæddist á Hunkubökkum í Skaftárhreppi þann 16. apríl árið 1887. Móðir hans hét Margrét Jónsdóttir og var frá Steinum undir Eyjafjöllum. Faðir Guðjóns, Samúel Jónsson, þótti mikilvirkur trésmiður og fékk Guðjón því snemma áhuga á húsagerð og arkítektúr. Guðjón bjó ásamt fjölskyldu sinni fyrstu þrjú æviár sín á Hunkubökkum en þau fluttu svo til Eyrarbakka. Eftir tíu ára dvöl á Eyrarbakka fluttust þau loks til Reykjavíkur. Samúel, faðir Guðjóns byggði þar glæsilegt hús að Skólavörðustíg 35 og bjó Guðjón í því húsi til æviloka.


Guðjón var mjög vel menntaður maður og var hann meðal annars fyrsti Íslendingurinn sem lauk sérstöku háskólaprófi í arkítektúr. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, lærði trésmíði hjá föður sínum og lauk prófi í þeirri grein árið 1908. Að því loknu stundaði hann nám við Iðnfræðaskólann í Kaupmannahöfn og lauk fullnaðarprófi í arkítektúr við Kunstakademiets Arkitektskole árið 1919 (Guðjón Samúelsson, 2012).

Greinilegt er að menntun Guðjóns hafi vakið athygli því strax að námi loknu var hann settur húsameistari ríkisins. Ári seinna eða árið 1920 var hann svo formlega skipaður í embættið. Guðjón gengdi því starfi í þrjátíu ár eða alveg til dauðadags, 25. apríl árið 1950 (Guðjón Samúelsson, 2012).