Byggingarnar sem merktar eru með rauðum hring eru hannaðar af Guðjóni Samúelssyni

Óhætt er að segja að Guðjón hafði mikil áhrif, ekki bara á mótun Akureyrar, heldur hafa byggingar hans breytt miklu fyrir samfélagið. Þó svo að flestar byggingar sem hann hannaði fyrir Akureyri séu stórar og miklar, eru þær samt látlausar og falla vel inn í umhverfið í kringum þær. Byggingarnar sem hann hannaði fyrir Akureyringa dreifast yfir mjög fjölbreytta starfsemi. Hann hannaði byggingar fyrir menntun, trúariðkun, heilbrigðisstarfemi, bankastarfsemi, íþróttir auk íbúða svo eitthvað sé nefnt. 

Byggingarnar eftir Guðjón eru þannig staðsettar að þær eru með merkari kennileytum bæjarins enn í dag þrátt fyrir að Akureyrarbær hafi margfaldast að stærð frá þessum tíma og fjöldi stórra bygginga hafi bæst við allt í kring. Flestar af stærstu byggingum Guðjóns á Akureyri eru staðsettar þétt við og í kringum gilið og mynda ákveðinn kjarna í hjarta bæjarins. „Það er ekki hægt að ala upp góða menn nema í fallegu umhverfi“ er haft eftir Guðjóni og það má svo sannarlega segja að þær fallegu byggingar sem hann hannaði fyrir Akureyri beri þess merki (Kolbrún Bergþórsdóttir, 2019).

Kolbrún Bergþórsdóttir. (2019). Vildi gera veg Íslands sem mestan. Fréttablaðið, 15(266), 32.