Líklega eru flestir sammála um það að Akureyrarkirkja er eitt helsta kennileyti Akureyrar og það sem flestir ferðamenn sem koma til bæjarins eiga myndir af. Á sóknarnefndarfundi árið 1934 var samþykkt að leita til Guðjóns til að hanna nýja Akureyrarkirkju. Eitthvað dró Guðjón það að teikna kirkjuna því farið var að reka á eftir honum árið 1937 þar sem gamla Akureyrarkirkjan var orðin ómessuhæf á veturna. Guðjón skilaði drögum að kirkjunni vorið 1938 (Sverrir Pálsson, 1990).

Vaðalfjöll við Þorskafjörð

Guðjón fékk gjarnan innblástur frá íslenskri náttúru sem hægt er að sjá bæði innan og utan á mörgum byggingum hans um allt land. Að sögn Guðjóns svipar Akureyrarkirkja til gotnesks stíls en hann gætti samt að hafa íslenskan blæ á kirkjunni. Innblásturinn af útliti turnanna fékk hann frá Vaðalfjöllum, sem eru tveir blágrýtistoppar við Þorskafjörð en einnig sótti hann innblástur frá íslenska stuðlaberginu (Sverrir Pálsson, 1990). 

Við gerð þessarar ritgerðar var tekið stutt viðtal við Jón Hjaltason, sagnfræðing og höfund bókanna Saga Akureyrar. Hann nefndi að ýmsar vangaveltur voru uppi um staðsetningu nýrrar Akureyrarkirkju. Bæjaryfirvöld voru hikandi við að gefa leyfi til byggingarinnar því í skipulagi var gert ráð fyrir vegi þar sem Guðjón vildi staðsetja kirkjuna. Nokkrir staðir komu til greina í stað núverandi staðsetningar til dæmis að hafa hana þar sem hús frímúrarareglu Akureyrar er í dag. Að sögn Jóns Hjaltasonar reis almenningur upp og heimtaði að fá kirkjuna á höfðanum eins og Guðjón hafði lagt til (Jón Hjaltason, munnleg heimild, 11. apríl 2021).

Sverrir Pálsson. (1990). Saga Akureyrarkirkju. Sóknarnefnd Akureyrarsóknar.