Barnaskóli Akureyrar (nú Rósenborg)

Áhrif Guðjóns á byggingarlist á Akureyri eru umtalsverð. Mikil þörf hefur verið á húsnæði fyrir skóla í bænum því í upphafi hannaði hann fyrst og fremst skólabyggingar. Fyrsta bygging sem Guðjón teiknaði fyrir Akureyringa var Barnaskóli Akureyrar en árið 1930 hófst starfemi í því húsi. Fljótlega eftir byggingu Barnaskólans eða á árunum 1942-1945 voru bæði Gagnfræðaskólinn og Húsmæðraskólinn byggður eftir teikningum hans. Gagnfræðaskólinn fluttist úr litlu húsnæði við Lundargötu 12 í hinn nýja Gagnfræðaskóla árið 1943. Þess má geta að höfundur þessarar ritgerðar býr í Lundargötu 12 í dag. Guðjón teiknaði einnig gömlu heimavistina við Menntaskólann á Akureyri og var hún hönnuð í samvinnu við þáverandi skólameistara skólans (Óskar Þór Halldórsson, 1993). 

Dæmi um verkamannabústaði á Akureyri sem teiknaðir voru af Guðjóni

Eftir að lög um verkamannabústaði voru samþykkt á Alþingi árið 1929 hófust miklar framkvæmdir við byggingar verkamannabústaða á Íslandi. Á Akureyri teiknaði Guðjón lágreistar íbúðir við Eyrarveg, Víðivelli og Norðurgötu. Líklegt er að Guðjón hafi haft töluverð áhrif síðar á hönnun bygginga á þessu svæði því stór hluti húsa á norðanverðri eyrinni eru svipuð verkamannabústöðunum sem Guðjón teiknaði (Óskar Þór Halldórsson, 1993).

Guðjón hannaði fyrsta áfanga núverandi Sjúkrahúss Akureyrar sem byggður var á árunum 1952-1954. Á þeim tíma þótti byggingin nýtískuleg. Meðal annars vegna þess að hver gluggi var ein rúða og var hægt að opna til fulls eða gera rifu eftir þörfum hvers og eins (Óskar Þór Halldórsson, 1993).  

Landsbankahúsið á Akureyri.
Greinilegt er að það vantar á það

Meðal annarra bygginga sem Guðjón Samúelsson hannaði fyrir Akureyri var fyrsti áfangi húss Pósts og síma og einnig Landsbankahúss sem enn hefur ekki verið lokið við. Einnig má nefna Sundlaug Akureyrar og íþróttahúsið við Laugargötu. Bygging íþróttahússins við Laugargötu þótti mikil bylting fyrir íþróttastarfsemi bæjarins (Óskar Þór Halldórsson, 1993). 

Óskar Þór Halldórsson. (1993). Af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Dagur, 78(49), 8-9.